Innlent

Missti báða fætur, vantar enn nýra

Pólverji sem missti báða fætur og hlaut töluverðan skaða af vegna blóðeitrunar sem hann fékk við störf hér á landi fyrir tveimur árum þarf einnig á nýju nýra að halda eftir slysið. Hann þarf að fara í nýrnavél á Landspítalanum þrisvar í viku en segist þó ekki geta hugsað sér að snúa aftur til Póllands þar sem íslenska heilbrigðiskerfið hlúi mun betur að sjúklingum en í heimalandinu.

Irek Gluchowksi kom hingað til lands vorið 2005 til að vinna og hóf störf hjá Jarðvélum. Hann sýktist eftir að hafa þrifið ruslagám við störf og fékk heiftarlega blóðeitrun. Hann lá milli heims og helju á spítala í rúma tvo mánuði og telst heppinn að vera á lífi í dag. Vegna eitrunarinnar þurfti að fjarlægja fætur Ireks fyrir neðan hné. Hann missti alveg heyrn á öðru eyranu og hefur einungis um helmingsheyrn á hinu. Bæði nýrun gáfu sig og hefur hann þurft að fara í nýrnavél þrisvar í viku í rúm tvö ár. Hann er nú nýfluttur í íbúð sem Rauði Krossinn útvegaði honum og fær mánaðarlegar bætur frá félagsþjónustunni. Irek segist þakklátur fyrir alla þá hjálp sem hann hefur fengið hér á landi en líf hans sé engu að síður breytt.

Irek segist ekki geta unnið og hefur lítið á milli handanna en lifir góðu lífi hér á landi þegar heilsan leyfir. Hann þarf að fara í nýrnarvél þrisvar í viku og segir það draga úr sér kraftinn. Hann vantar nýra til að koma líkamsstarfseminni í eðlilegt horf.

Eftir veikindin vóg Irek einungis 49 kíló en hann hefur nú náð upprunalegri þyngd. Hann fær nýja gervifætur frá Össuri í næstu viku sem passa betur við hans líkamsþyngd. Irek segir félagsþjónustuna og heilbrigðiskerfið í Póllandi vera lélegt og er á þeirri skoðun að hann hefði aldrei fengið sömu aðhlynningu þar eins og á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×