Innlent

Ekki inni í myndinni að selja RUV segir Þorgerður Katrín

Menntamálaráðherra segir að sér komi spurning Björns Bjarnasonar á óvart um hvort ekki sé best að selja Ríkisútvarpið. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, svarar því játandi að selja eigi RUV en Þorgerður Katrín fullyrðir að það sé alls ekki inni í myndinni.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, spyr þeirrar spurningar á heimasíðu sinni hvort ekki sé farsælast að selja RUV, að gömlu gufunni frátalinni, til að "snillingarnir geti keppti við Baugsmiðlana á jafnréttisgrundvelli, án þess að fá nefskatt," eins og hann orðar það.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, segist undrast þessi orð fyrrverandi menntamálaráðherra, ekki síst fyrir þær sakir að Björn hafi eindregið stutt þær breytingar sem gerðar voru á rekstrarformi Ríkisútvarpsins.



Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, svarar spurningu Björns Bjarnasonar um réttmæti þess að selja Ríkisútvarpið játandi á sinni heimasíðu þótt hann hafi eins og Björn stutt þá breytingu sem gerð var á ríkisútvarpinu. Þorgerður Katrín segir að þessi skoðun Sigurðar Kára hafi lengi verið kunn.

Hún segir að þótt þessi skoðun flokksbræðra sinna sé að koma fram með svo afgerandi hætti núna þá breyti það engu um Ríkisútvarpið, það sé ekki til sölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×