Innlent

Skakkaföll hjá íslenskum fjárfestum með lokun Sun Rocket í Bandaríkjunum

Íslenskir fjárfestar, þar á meðal nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir, hafa orðið fyrir skakkaföllum eftir að bandaríska fyririrtækið Sun Rocket hætti starfsemi. Brú II, er einn fjárfesta í bandaríska fyrirtækinu Sun Rocket.

Brú II er sjóður sem fjárfestir í vaxtarfyrirtækjum en fjárfestar í sjóðnum eru meðal annars Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf., Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Starfsmanna Ríkisins, Lífeyrissjóður Verslunarmanna, Sameinaði Lífeyrissjóðurinn og Tryggingamiðstöðin.

Að sögn Gísla Hjálmtýsson, framkvæmdastjóra Brú II, var Sun Rocket efnilegt fyrirtæki sem sérhæfði sig í lausnum á símamarkaði.

Unnið er nú að því að selja eignir Sun Rocket til að mæta skuldbindingum félagsins og til að skila til baka fjárfestingum eigendanna.

Nokkrar líkur eru á að fjárfestar tapi nokkru af því fé sem þeir hafa lagt í fyrirtækið.

Brú II kemur inn sem fjárfestir með fjölmörgum öðrum aðilum. Gísli vildi ekki tjá sig um hversu mikið fé Brú II hefur sett í þetta fjárfestingarverkefni.



Gísli segir að Brú tveir fjárfesti einungis í fyrirtækjum sem er stjórnað af eldhugum og hafi markvissa stefnu. Brú tveir sé hins vegar fyrirtæki sem leggi stund á áhættufjárfestingar, þetta sé líkt því að gróðursetja tré, menn viti ekki fyrirfram hvaða tré spjari sig.

Gísli segir að þessi atburður hafi engin áhrif á heildarvæntingar um afrakstur á sjóðnum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×