Innlent

Útlendingar leita réttar síns til Eflingar vegna vangoldinna launa

Yfir hundrað útlendingar hafa leitað til Eflingar vegna vangoldinna launa hjá verktakafyrirtækjum í byggingariðnaði síðustu þrjá mánuði. Um tveir þriðju þeirra sem leita til stéttarfélagsins vegna launakrafna eru útlendingar þrátt fyrir að þeir séu einungis lítill hluti félagsmanna.

Í fréttum Stöðvar tvö í gær var greint frá sex iðnaðarmönnum frá Lettlandi sem ekki hafa fengið greidd laun í fimm vikur frá verktakafyrirtækinu Stokkum sem byggir hótel við hlið Seðlabankans ásamt yfirverktakanum Ans efh. Framkvæmdastjóri Stokka sagði í samtali við fréttastofu að unnið sé að því hörðum höndum að greiða þeim launin á næstu dögum og segist harma að launagreiðslur hafi dregist. Guðmundur Þ. Jónsson annar varaformaður Eflingar segir alltof algengt að útlendir verkamenn fái ekki greidd laun hér á landi og stéttarfélagið sjái um innheimtu ef útséð er með að fyrirtækin geti greitt launin.

 

Guðmundur segir verkamenn í flestum tilvikum fá laun sín greidd þegar stéttarfélagið hlutast til um málin. Síðustu þrjá mánuði hafa 114 útlendingar leitað til Eflingar vegna vangoldinna launa af 174 sem leituðu til félagsins af sömu ástæðu. Útlendingar eru 66% af þeim heildarfjölda sem leita til stéttarfélagins vegna ógreiddra launa en eru einungis 20% félagsmanna. Helst eru það útlendingar sem starfa í byggingariðnaði.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×