Innlent

Norska fjármálaeftirltið athugar að skoða eignarhlut Kaupþings i Storebrand

Sighvatur Jónsson skrifar

Norska fjármálaeftirlitið athugar að skoða hvort Kaupþing ráði yfir meiru í norska tryggingafyrirtækinu Storebrand, en félagið hefur heimild fyrir. Hafi kaup fjármálafyrirtækisins Exista á bréfum norska félagsins verið gerð í samvinnu við Kaupþing er það brot á lögum. Stjórnarformaður Kaupþings segir svo ekki vera.

Erlenda fréttaþjónustan AFX News Limited greinir frá þessu í grein í morgun, sem birtist meðal annars á fréttavef bandaríska blaðsins Forbes.

Sækja þarf um sérstaka heimild til að kaupa meira en 10 prósent í norskum félögum. Kaupþing sótti á sínum tíma um heimild fyrir 25 prósenta hlut, en fékk leyfi til að kaupa 20 prósent í norska tryggingafélaginu Storebrand.

Eftir kaup fjármálafyrirtækisins Exista í Storebrand, er hlutur þess kominn yfir 5 prósent. Þar sem Exista á um fjórðung í Kaupþingi, vekur það áhuga norska fjármálaeftirlitsins hvort Kaupþing ráði þannig yfir meiru en þeim 20 prósentum sem félagið má eiga í Storebrand.

Haft er eftir talsmanni norska fjármálaeftirlitsins að þar á bæ sé menn meðvitaðir um tengsl Exista og Kaupþings. Hann segir að á þessu stigi málsins hafi ekki verið ákveðið hvort málið verði skoðað hjá norska fjármálaeftirlitinu, en vissulega væri áhugavert að spyrja hvort samvinna hafi verið um kaupin. Hafi svo verið sé það brot á lögum.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, segir ekkert óeðlilegt að norska fjármálaeftirlitið skoði málið. Hann segir félögin ekki vinna saman og að reglum sé fylgt. Kaup Exista hafi ekki verið gerð í samvinnu við Kaupþing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×