Innlent

Álag í Vínbúðum þessa dagana

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Mikið álag er á starfsfólki Vínbúðanna þessa dagana en búast má við að ríflega þriðjungur þjóðarinnar muni koma við til að kaupa áfengi fyrir þessa verslunarmannahelgi.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðanna, segir að salan hafi gengið ágætlega fyrir verslunarmannahelgina nú í ár og mikið álag sé á afgreiðslufólki. Vikan fyrir verslunarmannahelgi sé sölumesti tími ársins, ásamt jólum og áramótum. Í frétt á vefsíðu Vínbúðanna kemur fram að á síðasta ári hafi tæplega 110 þúsund viðskiptavinir komið í vínbúðirnar þessa viku, en í hefðbundinni viku í júlí komi á milli 70 og 80 þúsund viðskiptavinirnir. Tölur frá fyrri árum sýna að föstudagur er langstærsti söludagurinn í vínbúðunum þessa vikuna, sem aðrar, en milli þrjátíu og þrjátíu og fimm þúsund viðskiptavinir koma í vínbúðirnar þann dag. Árið 2006 voru tæplega sjöhundruð þúsund lítrar seldir frá mánudegi til laugardags í vikunni fyrir verslunarmannahelgi og var lítrafjöldinn svipaður og á árinu 2005. Tæplega 79% af seldu magni er bjór, sem er svipað hlutfall og þegar árið í heild er skoðað.

Vínbúðir eru almennt opnar til klukkan sjö í dag og til sex á morgun, laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×