Innlent

Fjögurra manna letnesk fjölskylda á götuna vegna launasvika

Sighvatur Jónsson skrifar

Fjögurra manna lettnesk fjölskylda í Reykjavík verður á götunni innan skamms, þar sem fjölskyldufaðirinn hefur verið svikinn um laun svo vikum skiptir. Fjölskyldufaðirinn og fimm landar hans lögðu niður í vinnu í dag vegna þessa, en mennirnir vinna við að reisa nýtt hótel í Reykjavík. Hóteleigandinn segir þetta ekki sitt vandamál þar sem verktökum hafi þegar verið greitt.

Iðnaðarmennirnir sex segjast ekki hafa fengið greidd laun fyrir síðustu fimm vikur, frá verktakafyrirtækinu Stokkar. Það fyrirtæki er undirverktaki fyrir yfirverktakann Ans, sem er að byggja nýtt hótel við hlið Seðlabankans.

Hóteleigandinn er búinn að borga yfirverktakanum, og yfirverktakinn undirverktakanum - en undirverktakinn hefur sem sagt ekki greitt starfsmönnunum laun.

Helmut Elmeris er 35 ára. Konan hans og 2 börn fluttu til landsins í kjölfar þess að yfirmaðurinn lofaði að aðstoða við að útvega fjölskyldunni íbúð. Helmut segir ekkert hafa gerst. Hann segir vinnuveitanda sinn skulda sér um 400.000 kr. Fjölskyldan býr núna í íbúð vinar, sem er í tveggja vikna vinnuferð á Akureyri.

Hóteleigandinn segir alla sína samúð hjá starfsmönnunum, en það sé ekki á hans könnu þar sem verktökum hafi verið greitt. Framkvæmdastjóri Ans, yfirverktakans, segir viðskiptasamninga hamla að hægt sé að borga starfsmönnum framhjá undirverktökum. Hjá undirverktakanum fást þær upplýsingar að launin verði greidd fljótlega, þegar skuldir hafi verið innheimtar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×