Innlent

Visthæfir bílar fá frítt í stæði

Frá og með deginum í dag geta eigendur visthæfra bifreiða lagt bílum sínum frítt í stæði í Reykjavík í 90 mínútur í senn. Ókeypis verður í gjaldskyld stæði nema í bílastæðahúsum og í stæði sem eru lokuð. Í frétt á heimasíðu Umhverfissviðs kemur fram að sérstök bílastæðaskífa hafi verið útbúin af þessu tilefni. Skífan er sett í framrúður bílanna og skal vísir hennar stilltur á þann tíma sem lagt er. Hægt er að nálgast skífurnar hjá bílaumboðum obrgarinnar.

Visthæfar bifreiðar eru skilgreindar á eftirfarandi hátt:

Bensínbílar: Eyðsla í blönduðum akstri er 5,0L/100km eða minna og CO2 útblástur að hámarki 120 g/km.

Díselbílar: Eyðsla í blönduðum akstri er 4,5L/100km eða minna og CO2 útblástur að hámarki 120 g/km.

Aðrir orkugjafar: Tvíorkubílar (hybrid) sem nota t.d. metan/bensín eða etanól/bensín og eyðsla fer ekki yfir 5,0L/100km í blönduðum akstri og CO2 útblástur að hámarki 120 g/km.

Bílgreinasambandið hefur tekið saman lista yfir um það bil 20 gerðir af bifreiðum sem falla undir skilgreiningu Reykjavíkurborgar á visthæfum bifreiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×