Innlent

Össur hyggst kynna aðgerðir til að styrkja Byggðastofnun

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segist í dag munu kynna afar mikilvægar aðgerðir til að styrkja Byggðastofnun. Aðgerðirnar eiga að gera henni fært að taka á málum útgerða sem eiga í vanda vegna skerðingar kvóta.

Össur ætlar að skýra frá þessum aðgerðum þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekur til starfa í dag. Það gerist á Ísafirði klukkan eitt og þangað til liggur Össur á upplýsingum um þessar aðgerðir eins og ormur á gulli.

Á heimasíðu sinni segir iðnaðarráðherra að allar tillögur ríkisstjórnarinnar í þess máli verði tilbúnar áður en Alþingi kemur saman í haust. Tillögurnar verða kynntar jafn óðum og þær hafa verið fullunnar til ríkisstjórnarinnar.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem tekur til starfa í dag verður til við samruna Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.

Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði. Í því felst meðal annars að miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og að stunda tæknirannsóknir, þróun, greiningar, prófanir, mælingar og vottanir.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands er einnig ætlað að annast stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×