Innlent

Fyrsti starfsdagur Nýsköpunarmiðstöðvar er á Ísafirði í dag

MYND/GVA

Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekur til starfa í dag, 1. ágúst 2007, við samruna Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Fyrsti starfsdagur miðstöðvarinnar verður á Ísafirði sem er sagt táknrænt fyrir áherslur Nýsköpunarmiðstöðvar á atvinnuþróun. „Þess er vænst að sameinuð starfsemi verði lyftistöng á sviði nýsköpunar og tækni," segir í tilkynningu frá Iðnaðarráðuneytinu. Á fyrsta starfsdeginum fyrir vestan verður tilkynnt um nýja starfsemi IMPRU tengda þekkingarsetrinu sem er í þróun á staðnum.

Nýtt auðkenni Nýsköpunarmiðstöðvar verður afhjúpað í Edenborgarhúsinu á Ísafirði kl. 13:00 í dag. Í tilkynningu kemur fram að Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ávarpi gesti en síðan haldi Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvarinnar, erindi um starfsemina á næstunni. „Einnig munu aðrir starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar fjalla um verkefni og árangur þeirra. Þar á meðal eru nokkrar athyglisverðar nýjungar sem ekki hefur verið greint frá áður," eins og segir í tilkynningunni.

Þá er sagt að veruleg samlegðaráhrif verði við sameiningu þessara tveggja stofnana á sviði rannsókna og tækni og einnig þjónustu við sprotafyrirtæki og frumkvöðla. „Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur nú möguleika á að samtvinna rannsóknar- og þróunarstarf við starfsemi á sviði viðskipta í ríkari mæli en verið hefur hér á landi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×