Innlent

Símahleranir 1968 byggðar á yfirlýsingu kranabílstjóra

Sighvatur Jónsson skrifar

Úrskurður um símahleranir í aðdraganda NATO fundar á Íslandi 1968, er byggður að miklu leyti á lögregluskýrslu frá sama ári, sem er nýlega komin fram. Skýrslan inniheldur yfirlýsingu kranabílstjóra um að hann hafi heyrt á tal manna um stúdentamótmæli í tengslum við fundinn.

Málið hefur verið kallað kaldastríðshlerunarmálið. Skjalið sem er nýlega komið fram er frá 30. maí 1968. Skjalið var leyniskjal uns Þór Jónssyni, fyrrverandi fréttamanni Stöðvar 2, var veittur aðgangur að því, eftir kæru bæði til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og menntamálaráðuneytisins.

Skjalið er lögregluskýrsla, þar sem kemur fram að kranabílstjóranum hafi borist orðrómur til eyrna um skipulagðan undirbúning mótmæla vegna væntanlegs fundar NATO í Reykjavík seinna á árinu. Strikað hefur verið yfir nöfn og aðrar upplýsingar í skjalinu. Kranabílstjórinn segir frá manni sem hafi verið að tjá öðrum verkamönnum á svæðinu að ekki mætti láta það líðast að Háskóli Íslands, æðsta menntastofnun landsins, yrði afgirtur og vopnaðir menn látnir gæta hans meðan á NATO fundinum stæði.

Maðurinn skýrði verkamönnunum frá því að um 50 útlægir Grikkir og fjöldi evrópskra stúdenta væru væntanlegir til landsins. Í skýrslunni kemur fram að þegar verkamennirnir fóru að tala um hvort þetta yrði ekki dýrt fyrirtæki, hafi aðkomumaðurinn tjáð þeim, að í slíkum tilfellum væri herkostnaðurinn greiddur erlendis frá og mundi í engu skorta fé.

Yfirlýsing kranabílstjórans hafði mikið að segja um að yfirvöld ákváðu að hlera síma ýmissa einstaklinga og stofnana hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×