Innlent

Ungmennum bannað að tjalda á Akureyri

Einstaklingum á aldrinum 18 til 23 ára verður bannað að tjalda á Akureyri um verslunarmannahelgina en í bænum verður fjölskylduhátíðin „Ein með öllu" haldin með pompi og pragt. Í tilkynningu frá Akureyrarbæ kemur fram að fjölskyldufólk á „öllum aldri" verði í forgangi þegar kemur að því að tjalda á tjaldsvæðum bæjarins og því geti einstaklingar á fyrrgreindum aldri ekki búist við að fá inni á tjaldsvæðum bæjarins. Lögregla mun einnig fylgjast grannt með opnum svæðum bæjarins og vísa á brott þeim sem hugsanlega tjalda þar í óleyfi.

„Síðustu verslunarmannahelgar hefur verið gerð tilraun til að hafa sérstök tjaldsvæði fyrir ungt fólk á svæði Þórs við Hamar en í ljósi reynslunnar hefur verið ákveðið að bjóða ekki upp á sérstök tjaldsvæði fyrir þennan aldurshóp að þessu sinni," segir í tilkynningunni. „Dagskrá hátíðarinnar er miðuð við fjölskyldufólk og því er eðlilegt að það hafi allan forgang á tjaldsvæðum og tryggt verði að þar sé hægt að dvelja í friði og spekt. Að sjálfsögðu er ungt fólk einnig boðið velkomið á hátíðina, hvort heldur sem er um að ræða ungt fjölskyldufólk, unglinga í fylgd með forráðamönnum eða unga Akureyringa."

Þá segir að bæjaryfirvöld á Akureyri hafi fulla trú á að hægt sé að halda „sannkallaða fjölskylduhátíð þessa helgi í bænum".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×