Innlent

Dyraverðir sáu ekki árásina á Kaffi Sólon

Sighvatur Jónsson skrifar

Árásin tengist staðnum ekki neitt, þar sem stúlkurnar voru ekki í biðröð inná Kaffi Sólon, segir yfirdyravörður skemmtistaðarins um hrottafengna líkamsárás aðfaranótt sunnudags, þar sem bútur af eyra var bitinn af konu. Móðir konunnar segir sjónarvott sem skakkaði leikinn hafa bjargað lífi dóttur sinnar. Lögregla hefur beðið aðstandendur afsökunar á seinagangi rannsóknar málsins.

Konan sem ráðist var á var úti að skemmta sér með tveimur öðrum, vinkonu sinni og frænku. Eftir að bjórflösku var kastað að þeim, var ráðist á konuna, hún dregin á hárinu eftir gangstéttinni og bútur bitinn af eyra hennar.

Vilhjálmur Jónasson, yfirdyravörður á Kaffi Sólon, segir konuna hafa verið utan biðraðar. Hann vill helst ekki að dyraverðir fari út fyrir þau mörk, þar séu þeir ekki tryggðir, og því á eigin ábyrgð. Vilhjálmur segir að dyraverðirnir hafi ekki séð árásina, og að þeir dyraverðir sem hann hafi náð tali af, kannist ekki við að til þeirra hafi verið leitað.

Móðir stúlkunnar segir að Kristmundur Anton Jónasson, sjónarvottur, hafi bjargað lífi dóttur sinnar. Kristmundur sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að hann hafi látið einn dyravörð vita af árásinni, en sá hafi ekki sagst geta hjálpað þar sem svæðið væri utan hans umráðasvæðis.

Lögreglan í Reykjavík hefur gert formlegt samkomulag við sjö skemmtistaði í miðborginni. Kaffi Sólon er ekki meðal þessara sjö staða, en engu að síður segir Vilhjálmur yfirdyravörður að gott samstarf sé milli dyravarða staðarins og lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×