Innlent

Sjóstöngin vinsæl fyrir vestan

Ferðaþjónusta tengd sjóstangaveiði hefur stóraukist á Vestfjörðum og menn sjá mikla möguleika í skemmtisiglingum. Á annað þúsund manns hafa komið á sjóstöng á Flateyri og Suðureyri það sem af er sumri. Þetta er tvöfaldur íbúafjöldinn í þessum tveimur sjávarplássum.

Á Flateyri vinna menn hörðum höndum við að reisa níu gistihús eða sumarbústaði fyrir erlenda sjóstangveiðimenn en þjónusta við þá er vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum.

Hvíldarklettur hf. rekur þessa þjónustu bæði á Flateyri og Suðureyri en fyrirtækið hóf starfsemi í vor.

Nálega hundrað manns koma vikulega á sjóstöng til Flateyrar og Suðureyrar en þrettán hundruð manns hafa komið á sjóstöng hjá fyrirtækinu í sumar að sögn Elíasar Guðmundssonar framkvæmdastjóra Hvíldarkletts.

Á fáum vikum hefur fyrirtækið náð að skapa störf fyrir 30 manns, 8 af þeim eru heilsársstörf.

Elías segir að jákvæður árangur af rekstrinum fylli menn bjartsýni á tímum kvótasamdráttar og undir það taka sjómenn á svæðinu sem telja að ný tækifæri liggi í ferðaþjónustu.

Hvíldarklettur leigir aflaheimildir fyrir 50 milljónir króna en fyrirtækið hefur þegar fjárfest fyrir nálega hálfan milljarð króna til að tryggja hátt þjónustustig.

Í Bolungarvík hefur einnig verið mikill vöxtur í ferðaþjónustu en þaðan er nú lagt kapp á að sigla með ferðamenn um Djúpið og norður í Jökulfirði. Útgerðarmenn sjá jafnvel möguleika á að nýta skipakost sinn í þessa þjónustu þegar kvótinn skerðist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×