Innlent

Náttúrusamtök leggjast gegn nýrri veglínu þjóðvegar 1

MYND/Stefán Karlsson

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands leggst gegn því að veglínu þjóðvegar 1 verði breytt þar sem hann liggur um Mýrdal en hreppsnefndin hefur tekið ákvörðun um breytingu á aðalskipulagstillögu þess efnis. Stjórn samtakanna telur ljóst að samþykkt sveitarstjórnar Mýrdalshrepps um veglínu „muni, ef til kemur, valda verulegum óafturkræfum breytingum á þessum svæðum, einkum þó Víkurfjöru, Reynishverfi, ræktunarlöndum bænda og votlendinu við Dyrhólaós."

„Stjórn NSS telur nauðsynlegt að breytingar á samgöngumannvirkjum lúti í senn markmiðum um náttúruvernd, öryggi og langtíma hagkvæmni, og gerir þá kröfu að til grundvallar ákvörðunum stjórnvalda liggi faglegt mat á þessum þáttum," segir í tilkynningu frá samtökunum. „Stjórn NSS telur því ótímabært að ný veglína fyrir þjóðveg 1 sé sett í aðalskipulagstillögu fyrr en gerðar hafi verið athuganir á annars vegar úrbótum á núverandi veglínu og hins vegar öðrum valkostum, með tilliti til (1) umhverfisáhrifa, (2) kostnaðar og umferðaröryggis, (3) efnahags- og félagslegra áhrifa á landnytjar, landbúnað og ferðaþjónustu (4) og áhrifa breytinga á ímynd og ásýnd svæðisins," segir ennfremur.

Í tilkynningunni segir ennfremur að samkvæmt ákvörðun Mýrdalshrepps um breytingu á aðalskipulagstillögu sé gert ráð fyrir jarðgöngum og nýrri veglínu þjóðvegar 1 um Mýrdal þannig að þjóðvegurinn liggi vestur eftir Víkurfjöru við suðurjaðar Víkurkauptúns, vestan þess við Blánef í göngum gegnum Reynisfjall. Þaðan liggi þjóðvegurinn í gegnum ræktunarlönd bænda í Reynishverfi og eftir bökkum Dyrhólaóss að norðan, þ.e. um votlendi og á jaðri friðlýstra náttúruminja, síðan í göngum gegnum Geitafjall og þar um ræktað land sunnan Ketilsstaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×