Innlent

Úrvalsvísitalan sveiflaðist mikið í júlí

MYND/Stefán Karlsson

Miklar hreyfingar voru á Úrvalsvísitölunni í júlí. Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að eftir miklar hækkanir í byrjun mánaðarins þar sem vísitalan náði hæsta lokagildi sínu 18. júlí í 9.016 stigum hafi Úrvalsvísitalan gefið töluvert eftir. Lokagildi vísitölunnar á föstudaginn var 8.697 stig sem samsvarar 3,54 prósenta lækkun frá lokagildinu 18. júlí.

Í Morgunkorninu kemur fram að lækkun vísitölunnar megi meðal annars rekja til lækkunar á mörkuðum erlendis „þar sem ótti um hertari aðgang að lánsfé leiddi af sér mikla lækkun á mörkuðum." Þá kemur fram að hækkun hafi orðið á mörgum erlendum hlutabréfamörkuðum í morgun og segja Glitnismenn að svo virðist vera sem slegið hafi á ótta fjárfesta í bili.

„Uppgjör fyrirtækja hér heima hafa ýmist verið á eða yfir væntingum greiningaraðila hingað til og verði framhald á því mun það styðja við Úrvalsvísitöluna í ágúst," segir í Morgunkorni Glitnis að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×