Innlent

Til álita að Danir, Norðmenn, Bretar eða Kanadamenn fljúgi eftirlitsflug

Sighvatur Jónsson skrifar
Utanríkisráðherra segir að til álita komi að Danir, Norðmenn, Bretar eða Kanadamenn taki þátt í lofteftirliti NATO hér á landi, þótt ekkert hafi enn verið staðfest varðandi þátttöku ríkjanna. Formaður Vinstri grænna og þingmaður Frjálslynda flokksins eru sammála um að byrjað hafi verið á öfugum enda í málinu.

Formaður Vinstri grænna sagði í hádegisfréttum Stöðvar 2 að samkomulagið um lofteftirlit við Ísland væri sýndarmennska. Hann gagnrýnir að engin stefna sé mótuð af hálfu Alþingis, að framkvæmdavaldið fari sýnu fram og taki ákvarðanir á fundum erlendis. Samfylkingin hafi sérstaklega rætt um þörfina á því að að skilgreina varnarþarfir Íslands.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, fagnar því að samkomulagið við NATO sé í höfn, og segir sjálfsagt að endurskoða mat á vörnum landsins.

Lofteftirlitið fellst í því að fjórum sinnum á ári hafi erlendar orrustuþotur viðveru á landinu. Ísland mun greiða kostnað af gistingu flugmanna, tækniaðstoð og fleiru - en viðkomandi NATO-ríki bera kostnað af sjálfu fluginu.

Forsætisráðherra sagði í gær að nokkur bandalagsríki hafi sýnt áhuga á lofteftirliti við Ísland. Utanríkisráðherra segir það koma til álita að Danir, Norðmenn, Bretar eða Kanadamenn taki þátt í eftirlitinu, þótt ekkert sé enn staðfest.

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, telur líkt og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, að byrjað hafi verið á öfugum enda í málinu. Jón telur að fyrst hefði átt að meta varnarþörf landsins og kynna málið fyrir stjórnarandstöðu, áður en farið var með það lengra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×