Innlent

Samgönguráðherra telur óeðlilegt að lágflug verði heimilað

Sighvatur Jónsson skrifar

Samgönguráðherra telur óeðlilegt að veitt sé leyfi fyrir lágflugi orrustuþotna í tengslum við heræfinguna Norður-víkingur, hér á landi um miðjan ágúst. Stjórnandi æfinganna hefur staðfest að búið sé að senda inn beiðni um slíkt. Formaður Vinstri grænna telur æfingarnar sýndarmennsku og utanríkisráðherra er ókunnugt um málið.

Lágflug er jafnan hluti slíkra heræfinga, en samkvæmt íslenskum lögum er það ekki leyfilegt yfir sumartímann.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að búið væri að senda inn beiðni til Samgönguráðuneytisins og Flugmálastjórnar um frávik frá reglum um lágflug, í tengslum við heræfinguna Norður-víkingur hér á landi um miðjan ágúst.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, umhverfisráðherra, vildi ekki veita viðtal vegna málsins í dag, en sagði að sér væri ókunnugt um að óskað hafi verið heimildar til lágflugs í tengslum við æfinguna.

Formaður vinstri grænna er ósáttur við að fjármunum sé varið í heræfingar hér á landi, og vill frekar efla uppbyggingu almannavarna, björgunarmála og löggæslu, svo eitthvað sé nefnt.

Samgönguráðherra sagði í hádegisviðtalinu á Stöð 2 að eðlilegt ferli umsóknar um lágflug væri það að Flugmálastjórn afgreiddi hana.

Endanlegt ákvörðunarvald er hins vegar hjá ráðuneytinu, en á ráðherra er að heyra að ólíklegt sé að umsókn um lágflug á sumartíma yrði samþykkt. Kristján vonar að einhvers misskilnings gæti hjá umsækjendum, og vonar að flogið verði í leyfilegri hæð svo æfingaflugið trufli ekki ferðamenn á viðkomandi svæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×