Innlent

Einkahagsmunir á kostnað almannahagsmuna í Þorskafirði

Sýslumaðurinn á Patreksfirði, sem barist hefur af krafti fyrir úrbótum á Vestfjarðavegi segir að landeigendur í Þorskafirði láti einkahagsmuni framar almannahagsmunum með því að höfða mál gegn umhverfisráðherra. Ráðherra hefur heimilað að Vestfjarðavegur liggi um Teigsskóg í Þorskafirði. Landeigendur segja að Teigsskógur sé ósnortinn og að arnarvarpi sé ógnað með nýja veginum.



Þórólfur Halldórsson sýslumaður á Patreksfirði er afar ósáttur við aðgerðir landeigenda í norðanverðum Þorskafirði sem hafa ákveðið að höfða mál gegn umhverfisráðherra í félagi við Náttúruverndarsamtök Íslands og Fuglaverndarfélag Íslands.

Landeigendur vilja reyna að hnekkja ákvörðun ráðherra sem hefur heimilað lagningu vestfjarðavegar um Teigsskóg í Þorskafirði með þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar.



Þórólfur segir að þessi vegstytting sé afar hagkvæm og mikilvæg fyrir Reykhólasveit og alla sunnaverða vestfirði. Önnur leið sé ekki möguleg í stöðunni.

Landeigendur segja hins vegar að aðrar leiðir séu færar og að ráðherra hafi gefið grænt ljós á framkvæmdirnar í trássi við niðurstöðu skipulagsstofnunar og umhverfisstofnunar.

Þórólfur vísar því algerlega á bug að umhverfisráðherra hafi ekki vandað til verka þegar hann tók ákvörðun um að heimila vegstæði í Teigsskógi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×