Þrír af aðalgestum Kirkjulistahátíðar koma fram á tónleikum í
tónleikaröðinni „BBC Proms" í Royal Albert Hall aðeins örfáum dögum
áður en þeir koma til landsins og taka þátt í flutningi á h-moll
messunni eftir Bach við opnun Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju
11.ágúst.
Robin Blaze, kontratenór, Peter Kooij, bassi og Gerd Türk, tenór, hafa
allir haslað sér völl í hópi fremstu flytjenda barokktónlistar í
heiminum og á tónleikunum í Royal Albert Hall flytja þeir verk eftir
Bach ásamt sópransöngkonunni Carolyn Sampson og Bach Collegium Japan undir stjórn Masaaki Suzuki. Það þykir mikill heiður að fá að taka
þátt í „BBC Proms" tónleikaröðinni sem á að baki 111 ára sögu og hafa
margir af virtustu og þekktustu tónskáldum og tónlistarfólki sögunnar
komið þar fram í gegnum tíðina. Íslenskum tónlistarunnendum gefst
einstakt tækifæri til að sjá þessa þrjá stórkostlegu söngvara flytja
eitt stórbrotnasta verk tónlistarsögunnar á Kirkjulistahátíð í ágúst.
Aðeins nokkrum dögum eftir tónleikana í Royal Albert Hall koma þeir
félagar fram á opnunartónleikum Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju
en þar taka þeir þátt í flutningi á h-moll messunni eftir Bach ásamt
sópransöngkonunni Moniku Frimmer, Mótettukór Hallgrímskirkju og
Alþjóðlegu barokksveitinni í Den Haag undir stjórn Harðar Áskelssonar.
Robin Blaze syngur einnig einsöng í óratóríunni Ísrael í Egyptalandi
eftir Handel sem verður frumflutt á Íslandi á Kirkjulistahátíð í
Skálholti 17. ágúst. Að auki leiðbeinir hann íslenskum söngvurum í
flutningnum á verkinu.
Kirkjulistahátíð fer fram í ellefta skipti 11.-19. ágúst. Dagskráin
sem fer að þessu sinni fram bæði Hallgrímskirkju og í Skálholti hefur
aldrei verið viðameiri. Á fjórða hundrað listamanna tekur þátt í
hátíðinni sem spannar allar tegundir listgreina. Einkunarorð
hátíðarinnar í ár eru úr Lofsöng Móse og Ísraelsmanna í Exodus,
annarri Mósebók, „Ég vil lofsyngja Drottni" og tengjast beint óratóríu Handels, Ísrael í Egyptalandi, sem flutt verður bæði í
Skálholtsdómkirkju og Hallgrímskskirkju.