Innlent

Rannsóknastofa í fjölmenningarfræðum stofnuð

Einar Skúlason, Hanna Ragnarsdóttir og Elsa Sigríður Jónsdóttir við undirritun samningsins.
Einar Skúlason, Hanna Ragnarsdóttir og Elsa Sigríður Jónsdóttir við undirritun samningsins. MYND/KHÍ

Samningur um stofnun rannsóknarstofu í fjölmenningarfræðum við Kennaraháskóla Íslands var undirritaður í gær. Forstöðumaður rannsóknastofunnar er Hanna Ragnarsdóttir lektor við Kennaraháskóla Íslands. Í stjórn rannsóknastofunnar eru auk Hönnu, Elsa Sigríður Jónsdóttir lektor við Kennaraháskóla Íslands og Einar Skúlason framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.

Rannsóknastofan mun að nokkru leyti byggja á störfum rannsóknahóps í fjölmenningarfræðum við Kennaraháskóli Íslands sem hefur starfað frá árinu 2004. Þátttakendur í honum eru starfandi kennarar og sérfræðingar innan og utan Kennaraháskólans ásamt meistaranemum.

Tvö stór verkefni eru í vinnslu á vegum hópsins, sem munu falla undir verksvið rannsóknastofunnar. Annars vegar rannsókn á skólaþróun í fjölmenningarsamfélagi á Íslandi, sem tekur til allra skólastiga. Hins vegar útgáfa handbókar í fjölmenningarfræðum, sem áætlað er að komi út í nóvember 2007.

Helstu markmið rannsóknastofunnar eru að hafa frumkvæði að og efla rannsóknir á sviði fjölmenningar, vera samstarfsvettvangur fræðimanna og hafa samstarf og tengsl við þá aðila sem móta stefnu og sjá um framkvæmdir á sviðinu. Markmiðið er einnig að miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna.

Með stofnun rannsóknastofunnar er brugðist við brýnni þörf á að auka þekkingu og skilning á ýmsum þáttum í þróun fjölmenningarsamfélagsins, ekki síst í skólakerfinu segir í tilkynningu frá Kennaraháskólanum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×