Innlent

Fjórtán mánaða fangelsi fyrir lífshættulega líkamsárás

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 22 ára karlmann í 14 mánaða fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás á Rauða ljóninu á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi í júní í fyrra.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa slegið fórnarlamb sitt í höfuðið þannig að það féll í gólfið. Árásarmaðurinn lét það ekki nægja heldur sparkaði í og steig á höfuð fórnarlambsins þannig að það fékk dreift heilamar.

Fram kemur í dómnum að maðurinn sem varð fyrir árásinni hafi verið fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús og að áverkar á heila hafi næstum orðið honum að bana.

Til átaka kom milli mannanna en út frá framburðum vitna taldi dómurinn erfitt að sanna hver hefði átt upptökin. Ákærði bar fyrir sig neyðarvörn en dómurinn féllst ekki á það og sagði viðbrögð hans langt umfram þá hættu er hann gat talið að sér steðja. Árásin hefði verið lífshættuleg. Auk líkamsárásarinnar var maðurinn sakfelldur fyrir þjófnað, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot.

Réttargæslumaður fórnarlambsins lagði fram rúmlega fimm milljóna króna skaðabótakröfu á hendur árásarmanninum en dómurinn vísaði henni frá þar sem hún þótti vanreifuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×