Innlent

Léleg laxveiði vegna þurrka

Léleg laxveiði hefur verið í flestum ám á Vesturlandi og reyndar víða um land upp á síðkastið, enda óvenju lítið vatn í ánum vegna langvarandi þurrka.

Í Norðurá í Borgarfirði hafa til dæmis ekki veiðst nema 60 laxar frá opnun fyrir 20 dögum. Þar er veitt á tólf stangir í senn og hefur meðalveiðin verði um þrír laxar á dag sem deilast á tólf veiðimenn. Þetta er mun minna en í fyrra.

Reyndir veiðimenn óttast þó ekki að hrun hafi orðið í stonfinum, heldur megi að öllum líkindum rekja þetta til vatnsleysis og svo er svonefndur Jónsmessustraumur í hafinu ekki fyrr en um mánaðamótin. Með honum berst jafnan mikið af laxi upp í árnar á Vesturlandi og víða.

Þá er talið að talsvert sé komið af laxi neðanvert í Hvítá í Borgarfirði og að hann bíði þess að vatn aukist í þveránum áður en hann gengur upp í þær. Áhugi á laxveiðum fer þó ekki dvínandi því það er lögnu liðin tíð að það hafi verið keppikefli laxveiðimanna að veiða sem mest upp í veðileyfin. Nú færist í vöxt að veiðimenn sleppi löxunum eftir að hafa landað þeim, hvað þá ef það þarf að bera þá langt upp í jeppann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×