Innlent

Fengu réttindi á við gagnkynheigða fyrir ári

Frá Gay Pride í Reykjavík í fyrra.
Frá Gay Pride í Reykjavík í fyrra. MYND/NFS

Samtökin '78 minnast þess í kvöld að ár er liðið frá því að þeir öðluðust að mestu leyti sömu réttindi og gagnkynhneigðir samkvæmt lögum. Baráttu samtakanna er þó langt í frá lokið að sögn framkvæmdastjórans.

Lögin sem um ræðir voru samþykkt þann 27. júní fyrra en það er alþjóðlegur baráttudagur samkynhneigðra. Með þeim skipuðu Íslendingar sér í hóp þeirra þjóða heimsins þar sem réttindi samkynhneigðra eru hvað best tryggð.

Að sögn Hrafnkels Stefánssonar, framkvæmdastjóra Samtakanna ´78, hafa lögin breytt miklu í lífi fjölda Íslendinga. Samkynhneigðir geti nú skráð sig í sambúð sem skipti miklu upp á skatta- og lífeyrisréttindi tengd mökum. Þá geti lesbíur nú farið í tæknifrjóvgun hér á landi en þær þurftu áður að fara til Danmerkur. Þá öðluðust samkynhneigðir rétt til frumættleiðinga frá útlöndum en ekki hefur reynt á það þar sem ekkert land hafi leyft ættleiðingar til samkynheigðra.

Hrafnkell segir að í kjölfar þessa áfanga hafi samtökin beint sjónum sínum í auknum mæli í aðrar áttir, meðal annars að fræðslustarfi. Fræðslufulltrúi hafi verið ráðinn til samtakanna sem sjá muni um fræðslu til kennara og skóla. Þótt samkynhneigðir hafi öðlast lagaleg réttindi á við gagnkynheigða haldi baráttan áfram fyrir félagslegu réttlæti. Þá muni samtökin áfram knýja á um að trúfélögum verði veitt heimild til að gefa saman samkynhneigð pör en nokkur trúélög hafa þegar lýst yfir vilja til þess.

Hátíðahöldin í kvöld hefjast í Iðnó klukkan níu en þar verður í fyrsta sinn veið Mannréttindaviðurkenning Samtakanna ´78 fyrir stuðning við mannréttindi samkynhneigðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×