Innlent

Faraldur alvarlegra mótorhjólaslysa

Mótorhjólaeign landsmanna hefur tvöfaldast á tveimur og hálfu ári. Jóhannes Gunnarsson, lækningaforstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss segir að faraldur alvarlegra mótorhjólaslysa hafi verið að undanförnu og skapi enn meira álag á sjúkrahúsinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu hefur mótorhjólum á vegum úti fjölgað gríðarlega að undanförnu. Í árslok 2004 voru þau um 3100 en í byrjun maí á þessu ári voru þau rösklega 6300. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lýst þungum áhyggjum af fjölgun mótorhjóla og nú bætist lækningaforstjóri Landspítalans í hóp þeirra sem áhyggjur hafa af ástandinu. Nærri þrjú hundruð mótorhjólamenn hafa slasast í umferðarslysum síðastliðinn áratug, þar af hafa sex beðið bana og 91slasast mikið.

Mjög erfitt verður að manna Landspítalann í sumar og þegar er byrjað að kalla fólk inn úr sumarfríum. Mikið slasað fólk liggur nú á Landspítalanum eftir mótorhjólaslys og þurfa þeir mikla umönnun, segir Jóhannes, og endurhæfingu þegar þar að kemur. Þetta er nýtt álag á spítalann samfara mikilli fjölgun mótorhjóla. Jóhannes segir að svo virðist sem sumir líti á mótorhjólin sem leikföng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×