Innlent

Alvarlega slasaður eftir vélhjólaslys í Vestmannaeyjum

Ökumaður vélhjóls liggur alvarlega slasaður á gjörgæsludeild eftir að hann féll af hjóli sínu á Höfðavegi í Vestmannaeyjum laust fyrir miðnætti. Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum var maðurinn, sem er á þrítugsaldri, aftastur hópi vélhjólamanna sem voru á leið frá Stórhöfða.

Hann missti stjórn á á hjóli sínu og runnu bæði hann og hjólið á vegrið. Það voru félagar mannsins sem tilkynntu um slysið og eftir rannsókn í Eyjum var hann fluttur með sjúkraflugi á Landspítalann í Fossvogi þar sem hann dvelur nú á gjörgsæludeild. Ekki fást upplýsingar um það hvers eðlis meiðslin eru en vakthafandi læknir segir þau alvarleg.

Ekki liggur fyrir hvort maðurinn ók of hratt en 50 kílómetra hámarkshraði var á þeim stað þar sem hann féll. Þetta er annað alvarlega véhjólaslysið á rúmri viku. Ökumaður annars vélhjóls liggur á sjúkrahúsi eftir að hann féll af hjóli sínu þegar hann reyndi að stinga lögregluna af að kvöldi sunnudagsins 10. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×