Innlent

Virkjanagróði gerir Ásahrepp að einu ríkasta sveitarfélagi landsins

Þrjár virkjanir á hálendinu gera fámennan sveitahrepp í Rangárvallasýslu að einu ríkasta sveitarfélagi landsins. Skattprósentan þar er sú lægsta á landinu og hreppurinn býður íbúum sínum auk þess upp á margskyns hlunnindi. Við virkjun Urriðafoss verður þessi hreppur enn ríkari.

Þegar menn aka austur yfir Þjórsárbrú á þjóðvegi númer eitt koma menn inn í Ásahrepp. Árbakkinn austan við Urriðafoss tilheyrir hreppnum og stöðarhúss fyrirhugaðrar virkjunar verður þeim megin. Í sveitarfélaginu búa um 160 manns en það fær þegar um 60 milljónir króna í fasteignagjöld á ári af virkjunum á Tungnaársvæðinu, við Hrauneyjafoss, Sigöldu og Vatnsfell, þar sem þær eru á afrétti hreppsins. Af þessum þremur virkjunum fær Ásahreppur fasteignagjöld sem nema um einni milljón króna á hvert heimili í hreppnum. Ef Urriðafossvirkjun bætist við aukast þessar tekjur um helming. Með þeirri virkjun bætast við 25 til 30 milljónir króna í fasteignagjöld á ári og virkjanatekjurnar færu þá í eina og hálfa milljón króna á hvert heimili.

Meðal þess sem Ásahreppur hefur boðið íbúum sínum er frír leikskóli fyrir fimm ára börn, uppsetning háhraðainternets fyrir sveitabæina og 200 þúsund króna umhverfisstyrkur fyrir bændur til að mála og snyrta býlin sín.

Stærstu hlunnindin eru þó sennilega lægsta útsvar á Íslandi, 11,24 prósent sem þýðir að skattprósentan sem lögð er á íbúa Ásaahrepps er nærri tveimur prósentustigum lægri en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Þetta ríkidæmi er talin meginástæða þess að íbúarnir hafa ítrekað kolfellt tillögur um að sameinast öðru sveitarfélögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×