Innlent

Ragnar Bjarnason kjörinn borgarlistarmaður Reykjavíkur

Ragnar Bjarnason, tónlistarmaður, var í dag kjörinn borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2007. Það var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, sem afhenti Ragnari heiðursviðurkenninguna í Höfða.

Heiðursverðlaunin eru veitt þeim listamanni sem þykir skara fram úr í sinni listgrein og hafa sett sterkan svip á samfélagið.

Fram kemur í tilkynningu frá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar að Ragnar Bjarnason hefur verið einn vinsælasti dægurlagasöngvari þjóðarinnar í rúma hálfa öld. Mörg laga hans, túlkun og stíll hafa staðist tímans tönn og ávallt skotiðst aftur upp á yfirborðið. Þá er hann einnig einn fárra söngvara sem hefur sungið inn á allar útgáfutegundir platna, það er að segja 78, 45 og 33 snúninga plötur auk geisladisksins.

Í tilefni af útnefningunni í dag var Ragnari veittur ágrafinn steinn, heiðursskjal og viðurkenningarfé. Ragnar þakkaði fyrir sig og söng hann Vorkvöld í Reykjavík við undirleik Árna Scheving en hann spilaði á sögufræga harmonikku Bjarna Böðvarssonar, föður Ragnars. Þá söng Páll Óskar og Milljónamæringarnir vinsæl lög Ragnars við athöfnina.

Ragnar sagði við athöfnina í dag að hann myndi ekki hætta að syngja fyrr en hann væri kominn undir græna torfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×