Innlent

Gagnrýna Landsvirkjun fyrir óeðlileg vinnubrögð

Urriðafossvirkjun.
Urriðafossvirkjun. MYND/Landsvirkjun

Landsvirkjun hefur augljóslega beitt sveitarstjórn Flóahrepps miklum þrýstingi til að ná fram markmiðum fyrirtækisins varðandi Urriðafossvirkjun að mati stjórnar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn flokksins sem gerir einnig alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Landsvirkjunar í málinu.

Fram kemur í yfirlýsingunni að Vinstrihreyfingin grænt framboð fagni upphaflegri ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps að gera ekki ráð fyrir Urriðafossvirkjun í drögum að nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins. Flokkurinn harmar hins vegar sinnaskipti sveitastjórnarinnar og telur augljóst að hún hafi verið beitt miklum þrýstingi af hálfu Landsvirkjunar.

Í yfirlýsingunni segir að það sé grundvallaratriði að orkufyrirtæki beiti ekki lýðræðislega kjörna fulltrúa og allan almenning óeðlilegum þrýstingi í sókn sinni í náttúruauðlindir þjóðarinnar. Bent er á að um 90 athugasemdir frá 250 einstaklingum hafi borist vegna tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps árið 2004. Þar er gert ráð fyrir tveimur virkjunum, Holta- og Hvammsvirkjun, og að mati Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs er því ljóst að veruleg andstaða er við áformin hjá íbúum og félagasamtök.

Þá eru stjórnvöld hvött til að taka engar bindandi ákvarðanir um stóriðju fyrr en heildstæð náttúruverndaráætlun hefur verið lögð fyrir Alþingi og samþykkt á þeim vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×