Innlent

Urrriðafossvirkjun aftur inni hjá Flóahreppi

Sveitarstjórn Flóahrepps ákvað eftir fund með forstjóra Landsvirkjunar í dag að taka Urriðafossvirkjun aftur inn í aðalskipulagstillögu og kynna skipulagið bæði með og án virkjunar. Oddvitinn segir menn vilja heyra betur hvað Landsvirkjun hefur að bjóða.

Sveitarstjórn Flóahrepps ályktaði óvænt í fyrradag um að hún hygðist hafna virkjun Urriðafoss. Þetta varð til þess að Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar ásamt Helga Bjarnasyni mætti til fundar við ráðamenn sveitarfélagsins, þau Aðalstein Sveinsson oddvita, Margréti Sigurðardóttur sveitarstjóra, Guðbjörgu Jónsdóttur varaoddvita og Björgvin Njál Ingólfsson hreppsnefndarmann. Niðurstaðan er sú að sveitarstjórnin opnar aftur á virkjunina.

Þegar spurt er hvað það var sem Landsvirkjun bauð sem fékk þá til að endurskoða afstöðu sína þá er svarið hvernig ýmiss fórnarkostnaður verði bættur.

Ljóst er að Flóamenn horfa yfir árbakkann og bera sig saman við Ásahrepp sem hefur þegar sett virkjunina inn á aðalskipulag. Ásahreppur mun að óbreyttu einn njóta allra fasteignagjalda af Urriðafossvirkjun, 25 til 30 milljóna króna á ári, og þar með mesta ávinningsins.

Sveitarstjórn Flóahrepps mun halda íbúafund eftir tíu daga þar sem tillögur að aðalskipulagi verða kynntar með og án Urriðafossvirkjunar. Í framhaldi af þeim fundi hyggst sveitarstjórnin taka ákvörðun um hvort virkjunin verður höfð inni á skipulagstillögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×