Innlent

Meira fjármagn þarf til rannsókna efnahagsbrota

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Hvítflibbaglæpir verða algengari með auknu flæði fjármagns í alþjóðasamfélaginu. Arðbærasti glæpurinn í dag er sala á eftirlíkingum tískuvara sem færir mun meiri hagnað en fæst af flutningi og sölu fíkniefna. Mun meira fjármagn þarf til efnahagsrannsókna hér á landi til að takast á við glæpi af þessu tagi.

Samtök atvinnulífsins og saksóknari efnahagsbrota stóðu fyrir morgunverðarfundi á Grand Hótel í morgun. Þar voru ræddir svokallaðir hvítflibbaglæpir og viðbrögð við þeim. Hér á landi eru það helst skattalagabrot, auðgunarbrot í rekstri fyrirtækja og tollsvikamál sem koma upp. Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari efnahagsbrota segir Ísland ekki hafa komið nógu vel út í alþjóðlegri úttekt á peningaþvætti. Ljóst sé að fjölga verði í einingunni til að ná alþljóðamarkmiðum.Hann segir bankana hér þó hafa tekið sig mikið á.

Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri samtaka fjármálafyrirtækja segir að íslensk fjármálafyrirtæki séu að komast í fremstu röð meðal Evrópuþjóða í vörnum gegn peningaþvætti.

Garðar G. Gíslason hæstaréttarlögmaður segir að tafir á meðferð mála af þessu tagi séu óviðunandi og brot á mannréttindum. Hann kennir um óskilvirku kerfi, mannfæð og of mörgum stofnunum sem komi að málunum. Helgi segir að tvöfalda þurfi starfsmannafjölda og auka fjármagn töluvert inn í efnahagsbrotadeildina svo unnt sé að sinna málum á viðunandi hátt. Þá vill Helgi aukna heimild til lögreglustjórasátta í málum af þessu tagi þannig að aðilar geti valið um hvort þeir vilji taka málin áfram í dómskerfinu eða ljúka því með þessum hætti. Í Noregi er þessari aðferð beitt með góðum árangri að sögn Helga. Hún sparar bæði tíma og fjármagn þar sem fyrirtæki greiða tugi og jafnvel hundruð milljóna í sektir.

Sarah Jane Hughes prófessor í lögum ivð háskólann í Indiana í Bandaríkjunum segir arðbærustu efnahagsbrotin brot á einkarétti. Hagnaður af sölu á eftirlíkingum lúxusvara sé meiri en af eiturlyfjjum og vopnasmygli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×