Innlent

Skipið sem fann Titanic rannsakar eldvirkni við Ísland

Skipið sem fann Titanic á hafsbotni fyrir 22 árum mun næstu þrjátíu daga rannsaka eldvirkni á Reykjaneshrygg í samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Háskólans á Hawaii. Rannsóknin er talin geta svarað spurningum um uppruna Íslands.

Klukkan níu í fyrramálið lætur bandaríska rannsóknarskipið Knorr úr Reykjavíkurhöfn í umfangsmesta vísindaleiðangur sem gerður hefur verið út til að kanna jarðsögu hafsbotnsins á Reykjaneshrygg. Skipið er sérhannað til jarðfræðirannsókna á sjávarbotni með 22 manna áhöfn og tekur 32 vísindamenn og tvo tæknimenn. Eitthundrað milljóna króna styrkur fékkst frá vísindasjóði Bandaríkjanna til verkefnisins. Þrír íslenskir vísindamenn verða í leiðangrinum undir stjórn þeirra Richard Hey og Ármanns Höskuldssonar en hann segir jarðfræði hafsbotsins vanrannsakaða.

Rannsóknarsvæðið nær allt vestur frá Breiðafirði og austur á Kötlugrunn og langt suðvestur á Reykjaneshrygg. Rannsaka á tengsl Reykjaneshryggjar við heita möttulinn undir Íslandi. Kanna á eldvirkni 20 milljón ár aftur í tímann og allt til vorra daga en nýjustu gos eru talin hafa verið við Eldey árið 1926 og síðast hugsanlega árið 1973.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×