Innlent

Færri teknir með fölsuð vegabréf

Kona á fimmtugsaldri, ættuð frá Srí Lanka og Hvít-Rússi á fertugsaldri voru dæmd í 30 daga fangelsi í Héraðsdómi Suðurnesja í gær fyrir að hafa framvísað fölsuðum vegabréfum við komuna til landsins um helglina.

Konan var með kanadískt vegabréf en karlinn framvísaði vegabréfi frá Litháen. Hann sagðist ætla að setjast hér áð. Bæði vegabréfin voru stolin og hafði þeim verið breytt.

Konan var í hjólastól en henni varð á að standa upp úr honum og teygja úr sér þegar hún hélt að engin sæi til. Jók það enn á grunsemdir tollvarða þegar þeir voru að athuga vegabréfið sem leiddi til þess að upp um hana komst. Ákæra á hendur fólksins var þingfest í gær og málið strax tekið til dóms.

Fólkinu verður væntanlega vísað úr landi þegar það hefur afplánað refsinguna. Samkvæmt upplýsingum lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli hefur heldur dregið úr svona tilvikum upp á síðkastið , enda er fljótt að spyrjast út á hvaða landamærastöðvum eftirlit er öflugt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×