Innlent

Háskaakstur segir formaður Sniglanna

Formaður Sniglanna segir að um háskaakstur hafi verið að ræða hjá tveimur félagsmönnum í Sniglunum í nótt. Annar ökumananna berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi eftir alvarlegt slys á Breiðholtsbraut. Honum er nú haldið sofandi en hann er á leið í aðgerð. Maðurinn hálsbrotnaði í slysinu. Hinn ökumaðurinn er hins vegar kominn heim af sjúkrahúsi og slasaðist hann ekki alvarlega. Lögreglan telur að meðalhraði bifhjólanna hafi farið á þriðja hundraðið.

Að sögn lögreglu tók það bifhjólamennina innan við tíu mínútur að aka frá Kambabrún að Rauðavatni þar sem lögreglan hafði sett upp vegatálma í nótt. Upphaflega hafði lögreglan á Selfossi mælt bifhjólin tvö á gríðarlegum hraða og gefið stöðvunarmerki sem ekki voru virt.

Formaður Sniglanna segist harma þetta atvik en menn ættu að varast að dæma alla bifhjólamenn út frá framferði þessara tveggja núna í nótt.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Selfossi, segir að bifhjólin tvö hafi verið mæld á nálega 180 kílómetra hraða á klukkustund fimm mínútur og 27 sekúndur yfir miðnætti, en þá voru ökumenn bifhjólanna á Kambabrún.

7 mínútum og þremur sekúndum síðar fóru þeir í gegnum hindranir sem lögreglan setti upp nærri Rauðavatni. Hindranirnar voru settar upp með lögreglubílum en samkvæmt óstaðfestum útreikningum lögreglunnar var meðalhraði hjólanna á þriðja hundrað kílómetrar á klukkustund á ferð þeirra yfir Hellisheiði. Ferðin endaði með þeim hætti að annar ökumaðurinn lenti aftan á bíl á Breiðholtsbraut, og féll við það í götuna, og slasaðist alvarlega. Hinn missti einnig stjórn á vélhjóli sínu í framhaldinu og féll í götuna en slasaðist ekki alvarlega.

Að sögn Odds Árnasonar fylgdi lögreglan á Selfossi hjólunum eftir yfir heiðina en lögreglumenn misstu strax sjónar á þeim, slíkur var hraðinn. Lögreglubíll mætti hjólunum tveimur við Bláfjallaveg en snéri ekki við á eftir þeim að sögn lögreglu.

Kristján Ólafur Guðnason, aðst.yfirlögregluþjónn í umferðardeild lögreglunnar í höfuðborginni segir að lögreglan hafi staðið faglega að því að setja upp vegatálma sem ökumennirnir hafi átt kost á að sneiða hjá til að forðast slys.

Báðir mennirnir eru félagar í Sniglunum, bifhjólasamtökum lýðveldisins. Annar þeirra hefur verið í stjórn samtakanna en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur sá nýverið hætt í stjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×