Innlent

Íhuga málsókn en hafa engu hótað

Höskuldur Kári Schram skrifar
Íbúar við Njálsgötu óhressir með áform um opnun heimilis fyrir útigangsmenn.
Íbúar við Njálsgötu óhressir með áform um opnun heimilis fyrir útigangsmenn. MYND/AB

Íbúar við Njálsgötu hafa ekki hótað borginni málsókn vegna áforma um stofnun heimilis fyrir útigangsmenn í götunni að sögn annars tveggja fulltrúa íbúa. Hann segir nú beðið eftir áliti lögmanna Reykjavíkurborgar á minnisblaði sem lögmannsstofan Lex gerði fyrir íbúana.

Fram kom í frétt Vísis fyrr í dag að íbúar hefðu í hyggju að höfða málsókn á hendur borginni næðist ekki sátt í málinu. Kristinn Jóhannesson, annar tveggja fulltrúa íbúa við Njálsgötu leggur áherslu á að engu hafi verið hótað og ekkert sé ákveðið í þeim efnum.

„Við munum íhuga málsókn náist ekki sátt í málinu," sagði Kristinn Jóhannesson í samtali við Vísi. „Það hefur hins vegar engu verið hótað."

Fulltrúar Velferðarsviðs og íbúa við Njálsgötu funduðu í síðustu viku vegna málsins. Á fundinum lögðu fulltrúar íbúa fram minnisblað frá lögmannsstofunni Lex þar sem meðal annars kemur fram að verulegar líkur séu á því að fyrirhuguð starfsemi heimilisins sé ekki í samræmi við samþykkt skipulag. Þá telja lögmenn íbúa einnig mögulegt að breytt notkun á fasteigninni kalli á byggingarleyfi með tilheyrandi grenndarkynningu.

Hlé hefur verið gert á viðræðum þangað til fyrir liggur álitsgerð lögfræðinga borgarinnar á minnisblaðinu. Stefnt er að öðrum fundi seint í næstu viku eða í vikunni þar á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×