Innlent

Verður að færa samgöngunet landsins inn í nútímann

Höskuldur Kári Schram skrifar

Færa verður samgöngunet landsins í nútímalegt horf og breikka vegi þar sem umferðarþunginn er hvað mestur að mati Signýjar Sigurðardóttur, forstöðumanns flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu. Flutningafyrirtæki innan samtakanna efna nú til kynningarátaks til að bæta ímynd landflutninga. Signý segir neikvæða umræðu hafa háð flutningafyrirtækjum.

„Við viljum efla ímynd atvinnugreinarinnar," sagði Signý Sigurðardóttir, forstöðumaður flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við Vísi. „Umræðan hefur verið neikvæð og það hefur verið látið að því liggja að það væri hægt að henda flutningabílum út í sjó."

Flutningafyrirtæki innan Samtaka verslunar og þjónustu hófu í dag kynningarátak undir yfirskriftinni „Við erum á ferðinni fyrir þig". Markmið átaksins er að minna á þá staðreynd að vöruflutningabílar eru á ferðinni fyrir fólkið og atvinnulífið í landinu og að öflugir landflutningar séu forsenda þess að atvinnulíf og byggð getið þrifist um allt land. Verkefnið mun standa yfir næstu mánuði.

Signý segir fólk oft hafa neikvæða ímynd af vöruflutningabílum úti á þjóðvegunum. Hún telur að með því að minna á hlutverk þeirra í samfélaginu sé hægt að auka skilning meðal fólks. „Við skiljum tilfinningu fólks að mæta þessu stórum bílum á þjóðvegunum. Staðreyndin er hins vegar sú að flutningabílar eru innan við 10 prósent af heildarumferð á þjóðvegunum. Þetta er svipað hlutfall og erlendis. Það sem þarf að gerast er að færa samgöngunet landsins inn í nútímann. Breikka vegi og bæta burðarþol þeirra, sérstakelga þar sem umferðin er hvað mest."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×