Innlent

Nördar hefna ófaranna í Svíþjóð

Leikmenn FC Nörd eru geysilega bjartsýnir fyrir slag sinn gegn sænskum stallbræðrum sínum í FC Z en leikurinn fer fram hér á landi í júlí.

Þótt opinberlega sé um vináttuleik að ræða er spurning hversu mikil frændsemi verður ræktuð í þessari rimmu. Nördarnir munu án efa hugsa um mörkin fimm sem Svíar settu gegn okkur á dögunum. Einn af snillingum liðsins, sjálfur Tandri Waage, telur að Svíar eigi ekkert inni hjá okkar mönnum. Hann spáir að leikurinn fari 10-0 fyrir Ísland.

Leikurinn verður á Kópavogsvelli í tengslum við Landsmóts UMFÍ sem verður helgina 5-8 júlí. Logi Ólafsson, einvaldur og þjálfari liðsins, mun án nokkurs vafa berja liðið rækilega saman fyrir leikinn og laða fram alla helstu kosti hvers Nörds. Tandri er í toppæfingu og hefur æft í sturtunni að eigin sögn, beygt sig eftir sápunni.

Frægðarsól Nördanna reis hæst þegar lið þeirra spilaði gegn Íslandsmeisturunum úr fimleikafélagi hafnarfjarðar. Hátt í átta þúsund manns mættu á Laugardalsvöll til að sjá kempur Nördanna spila gegn FH í fyrrahaust. Það dugar því ekkert minna núna en ný stúka í Kópavogi til að rúma áhorfendur þessa leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×