Innlent

Sáu ekki ástæðu til að aðstoða stúlku í neyð

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn manns sem grunaður er um að hafa reynt að nauðga konu í nágrenni Þjóðleikhússins í gærmorgun. Vegfarendur sem urðu vitni að árásinni sáu ekki ástæðu til að koma konunni til aðstoðar.

Árásin átti sér stað í Traðarkotssundi, gegnt Þjóðleikhúsinu um sexleitið í gærmorgun. Stúlkan, sem er á tvítugsaldri, var ein á ferð og á heimleið. Maðurinn réðst á konuna, dró hana inn í portið og reyndi að nauðga henni. Konunni tókst með miklu harðfylgi að komast undan og tilkynna árásina til lögreglu.

Konan var flutt á neyðarmóttöku fyrir þolendur í kynferðisbrotum á Landspítalann í Fossvogi. Að sögn lögreglu hefur skoðun á eftirlitsmyndavélum í nágrenninu ekki varpað frekara ljósi á málið en engin eftirlitsmyndavél er í portinu þar sem árásin átti sér stað.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru einhver vitni að árásinni sem sáu ekki ástæðu til að koma konunni til aðstoðar en yfirleitt er nokkur umferð á þessum stað á laugardagsmorgnum. Einhverjir hafa nú þegar gefið sig fram við lögreglu sem vinnur nú úr þeim upplýsingum.

Lögregla biður hvern þann sem hefur einhverjar upplýsingar sem gagnast gætu við rannsókn málsins að hafa samband í síma 444-1100. Árásarmaðurinn er sagður um þrítugt og eru sterkar líkur taldar á því að hann sé af erlendu bergi brotinn. Hann er á bilinu 185-190 sentímetrar á hæð, með stutt, mjög dökkt eða svart hár og svarta skeggbrodda eða svart skegg. Maðurinn er grannvaxinn og var klæddur í rauða eða vínrauða peysu eða jakka og svartar buxur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×