Innlent

Leita hefnda eftir tapið gegn Svíum

Eitt af undrum Íslands, knattspyrnufélagið Nörd, mun taka að sér að leita hefnda eftir ófarir Íslendinga í Svíþjóð á dögunum þar sem drengirnir hans Eyjólfs Sverrissonar töpuðu 5-0.

FC Nörd mun leika við sænska stallbræður sína í FC Z hér á landi í júlí og þótt opinberlega sé um vináttuleik að ræða er spurning hversu mikil frændsemi verður ræktuð í þessari rimmu. Nördarnir munu án efa hugsa um mörkin fimm sem Svíar settu gegn okkur í Stokkhólmi á dögunum.

Leikurinn gegn FC Z verður á Kópavogsvelli í tengslum við Landsmót UMFÍ sem verður helgina 5.-8. júlí. Logi Ólafsson, einvaldur og þjálfari Nördanna, mun án nokkurs vafa berja liðið rækilega saman fyrir leikinn og laða fram alla helstu kosti hvers Nörds.

Eins og margir vita fóru Nördarnir mikinn í fyrra í þáttaröð á Sýn og var framlag þeirra tilnefnt til Edduverðlauna sem skemmtiþáttur ársins.

Frægðarsól Nördanna reis hæst þegar lið þeirra spilaði gegn Íslandsmeisturunum úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar. Hátt í átta þúsund manns mættu á Laugardalsvöll til að sjá kempur Nördanna spila gegn FH í fyrrahaust. Það dugar því ekkert minna núna en ný stúka í Kópavogi til að rúma áhorfendur þessa leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×