Innlent

Hreyfill kærir útboð í leigubílaakstur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hreyfill telur útboðið óeðlilegt

Hreyfill svf. hefur kært rammasamningsútboð Ríkiskaupa í leigubifreiðaakstur á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesbraut til kærunefndar útboðsmála. Hreyfill telur afgreiðslu Ríkiskaupa á útboðinu ámælisverða þar sem framsetningu tilskilinna gagna var ábótavant og mat stofnunarinnar á þjónustuþáttum bjóðenda óeðlilegt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hreyfli.

Hreyfill telur einkum óeðlilegt að útboðinu hafi verið breytt eftir að upphafleg útboðslýsing var birt, því skipt í höfuðborgarsvæðið annars vegar og Reykjanesbraut hins vegar, án þess að athugasemd væri birt um það. Þá telur Hreyfill að mat Ríkiskaupa á þjónustuþáttum sé skoðunarvert. Ákvæði um meðal biðtíma hefði verið tekið út úr matinu. Nýja leigubílastöðin fengi hærra heildarmat en Hreyfill svf. þrátt fyrir að bílafloti Hreyfils telji rúmlega 350 bíla en bílafloti Nýju leigubílastöðvarinnar sé um 10 bílar. Loks telur Hreyfill að þeirra tilboð sé fjárhagslega hagstæðara en tilboðið frá Nýju leigubílastöðinni.

Hreyfill gerir kröfu um að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit á því hvort Ríkiskaup hafi orðið skaðabótaskyld gagnvart Hreyfli vegna ákvörðunar um samningsgerð við Nýju leigubílastöðina á grundvelli útboðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×