Innlent

Telur samning Orkuveitunnar við Norðurál óráðlegan

Orkusölusamningur Orkuveitu Reykjavíkur við Norðurál er ótímabær og óráðlegur að mati Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þetta kom fram í máli hans í viðtali í Íslandi í dag. Hann greiddi atkvæði gegn samninginum þegar stjórn orkuveitunnar samþykkti hann í dag. Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitunnar, gekk út af fundinum þegar tillaga hennar um að leynd á orkuverði yrði aflétt var felld.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, gagnrýndi stjórn Orkuveitu Reykjavíkur harðlega í viðtali í Íslandi í dag. Sagði hann óráðlegt fyrir orkuveituna að gera samning við Norðurál meðan ennþá ríkti óvissa um það hvort orkuveitan verði að standa við tvöfalt stærri samning við álverið í Straumsvík. Benti hann á að ef báðir samningar verði inni dugi allar virkjanir Orkuveitur Reykjavíkur ekki til.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur greiddu atkvæði gegn samninginum þegar hann var samþykktur í dag. Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, lagði fram tillögu um að leynd á orkuverði yrði aflétt. Þegar sú tillaga var felld gekk hún út af fundi.

Í viðtali við Ísland í dag sagði Svandís það vera ósvinna að orkuverð sé leyndarmál. Slíkt hindri gagnsæi og geri fólki ómögulegt að taka upplýsta afstöðu í stóriðjumálum. Treysti hún sér ekki til að þaga um verðið þegar það var rætt og ákvað þess vegna að ganga áður af fundi.

Þá taldi hún ennfremur að með samninginum í dag hafi hluti stóriðjustefnunnar verið innsiglaður. Telur hún nauðsynlegt að staldra við og skoða fleiri möguleika en þá sem tengjast uppbyggingu stóriðju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×