Innlent

Áfengisauglýsingar sífellt fyrirferðarmeiri á netsíðum unglinga

Áfengisauglýsingar á netinu verða sífellt fyrirferðameiri á netsíðum unglinga. Þær geta skekkt mynd þeirra af því hvað telst hófleg áfengisneysla. Auk þess eru auglýsingarnar oftast kyngerðar og byggja upp kvenfjandsamlega ímynd. Þetta kom fram á morgunverðarfundi í Neskirkju um netið og siðferði.

Tölvunotkun barna og unglinga hefur verið mikið í umræðunni. Nýverið hefur borið á auknu magni áfengisauglýsinga sem beint er að unglingum á netinu.

Salvör Gissurardóttir, lektor við Kennaraháskóla íslands, segir að þær birtist víða, meðal annars á svokölluðum djammsíðum unglinga og markaðssetningin sé oft á tíðum klámfengin. Hún festi í sessi kvenfjandsamlega ímynd og lýsi áfengisneyslu á mjög jákvæðan hátt og byggi upp neytendur framtíðarinnar sem finnist í lagi að sulla í sig í tíma og ótíma.

Björn Harðarson sálfræðingur segir auglýsingarnar hafa skaðleg áhrif á siðferði barna og unglinga. Aðgengið sé orðið gífurlega mikið á Netinu og þetta breyti meðal annars mynd barna og unglinga af kynlífi.

Hann segir að foreldrar þurfi að endurmennta sig og fylgjast með framvindu í netmálum því annars sé hætta á að börnin hafi valdið í sínum höndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×