Innlent

Fresta atvinnuviðtölum vegna mögulegrar vanhæfni

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/EÓ

Fresta þarf atvinnuviðtölum við 72 umsækjendur um starf markaðsstjóra Ferðamálastofu í Bandaríkjunum sökum þess að ferðamálstjóri telur sig mögulega vanhæfan til að fjalla um ráðninguna. Einn af umsækjendunum er skyldur starfsmanni Ferðamálastofu.

„Ég tel mögulegt að ég sé vanhæfur til að fjalla um ráðninguna," sagði Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, í samtali við Vísi. „Ég hef því sent samgönguráðuneytinu bréf og óskað eftir leiðbeiningum."

Alls sóttu 72 um starf markaðsstjóra Ferðamálastofu í Bandaríkjunum en umsóknarfrestur rann út fyrir skömmu. Þegar nafnalisti barst Ferðamálastofu kom í ljós að meðal umsækjenda var skyldmenni starfsmanns á skrifstofu embættisins.

Magnús segir það nú í höndum ráðuneytis að ákveða hver muni fjalla um ráðningarnar. Hann segir ljóst að verði hann úrskurðaður vanhæfur munu sjálfkrafa allir aðrir starfsmenn Ferðamálastofu einnig teljast vanhæfir. Í því tilviki þurfi ráðuneytið að finna aðra aðila til fjalla um umsóknirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×