Það eru heilmiklar hræringar á sjónvarpsmarkaðnum.
Eftir margra mánaða vangaveltur hefur NBC sjónvarpsstöðin ákveðið að ráðast í framleiðslu á átjándu seríunni af þættinum Law and Order, sem er sýndur á Skjá einum. Áhorf hefur hrunið af þættinum og nú horfa aðeins um níu milljónir manna á hvern þátt. Þetta þykir á mörkum þess boðlega, en á nýja vinsæla þætti á borð við Gray's Anatomy horfa um tuttugu milljónir manna í viku hverri.Þá hefur CBS hætt við heimsendasjónvarpsþátt sinn Jericho sem einnig er sýndur á Skjá einum. Líkt og með þættina ,,Lost" á ABC og ,,Heroes" á NBC hafði áhorf á þáttinn snarminnkað eftir pásu sem þeir tóku sér í miðri þáttaröð.
En það kemur ýmislegt í staðinn. Fyrir þá sem voru komnir með leiða á raunveruleikaþáttum er NBC með nýstárlega útgáfu. Þátturinn nefnist ,,Kid Nation". Þar er 40 börnum komið fyrir í yfirgefnum bæ í Nýju-Mexíkó og fylgst með þeim þar sem þau reyna að mynda samfélag án handleiðslu fullorðinna.