Lífið

Láttu Gere í friði

Óli Tynes skrifar
Forboðnu kossarnir.
Forboðnu kossarnir.

Indverskur dómari sem gaf út handtökuskipun á hendur Richard Gere fyrir að kyssa indverska leikkonu, hefur verið fluttur til í starfi. Dinesh Gupta vildi líka láta handtaka leikkonuna Shilpu Shetty. Kossarnir smullu á samkomu í Indlandi, þar sem var vakin athygli á alnæmis-vandanum. Gere hefur verið duglegur við að leggja þeim málstað lið.

Kynnir á samkomunni var hin íðilfagra Shetty, sem varð heimsfræg þegar hún kom fram í raunveruleikaþættinum Big Brother, í Bretlandi. Þar jusu tveir aðrir þáttakendur yfir hana svívirðingum, meðal annars vegna uppruna hennar. Úr því varð svo mikið hneyksli í Indlandi að Tony Blair varð að gefa út yfirlýsingu þar sem hann fordæmdi Big Brother.

Richard Gewre hafði verið að tala um smitleiðir HIV og lagði áherslu á að það væri allt í lagi að sýna hinum smituðu hlýju með því að faðma þá og kyssa. Til þess að leggja áherslu á það faðmaði hann og kyssti Shetty.

Indverjar eru siðavandir og þótti þetta í hæsta máta óviðeigandi. Dinesh Gupta móðgaðist svo að hann gaf út handtökuskipanir. Það þótti þó heldur langt gengið og margir lögfræðingar sögðu að hann hefði gert Indland hlægilegt. Gupta hefur nú verið fluttur til í embætti og situr í litlu afskekktu þorpi. Yfirvöld segja þó að þetta sé aðeins venjulegur tilflutningur í starfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.