Enski boltinn

Whelan íhugar að höfða mál gegn West Ham

Whelan er hér á góðri stundu með kollega sínum Eggerti Magnússyni
Whelan er hér á góðri stundu með kollega sínum Eggerti Magnússyni NordicPhotos/GettyImages

Dave Whelan, stjórnarformaður Wigan í ensku úrvalsdeildinni, segist vera að íhuga að höfða mál á hendur West Ham og ensku úrvalsdeildinni. Hann segir að West Ham hafi sloppið fáránlega vel með 5,5 milljón punda sekt fyrir að tefla fram ólöglegum leikmönnum og vill að minnst 10 stig verði dregin af liðinu.

"West Ham braut mjög alvarlega af sér. Félagið braut lög og laug að öllum og fyrir það ætti liðið að fá minnst 10 stiga refsingu. Ég er viss um að við munum fara í mál við West Ham - eða þá úrvalsdeildina - ef það reynist mögulegt," sagði Whelan. West Ham var fyrir nokkru dæmt til að greiða 5,5 milljón punda sekt eftir að leikmannaskipti þeirra Javier Mascherano og Carlos Tevez reyndust ólögleg.

"Ef fullnægja ætti réttlætinu, myndi West Ham falla niður um deild, en því réttlæti hefur enn ekki verið fullnægt. Ég myndi styðja það heilshugar ef einhver af liðunum sex í botnbaráttunni myndu taka sig saman og höfða mál á hendur West Ham og ég veit til þess að það er í skoðun," bætti Whelan við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×