Enski boltinn

Ferguson: Dyrnar eru opnar fyrir Chelsea

Alex Ferguson minnti fréttamenn á að Man. Utd. væri ennþá með forystu í kapphlaupinu um enska meistaratitilinn.
Alex Ferguson minnti fréttamenn á að Man. Utd. væri ennþá með forystu í kapphlaupinu um enska meistaratitilinn. MYND/Getty

Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd. viðurkennir að kapphlaupið um meistaratitilinn í ensku úrvalsdeildinni sé fjarri því að vera á enda eftir jafntefli liðsins gegn Middlesbrough í kvöld. Manchester United varð fyrir áfalli þegar Rio Ferdinand fór meiddur af velli og verður hann frá í tvær vikur hið minnsta.

"Þessi úrslit opna dyrnar fyrir Chelsea, það er ekki spurning. Við vissum alltaf að ef við gerðum mistök þá fengju þeir möguleika á að færast nær okkur. Nú reynir virkilega á karakter þessa liðs. Við erum ennþá í forystu og leiðum þannig kapphlaupið en verkefnið er orðið erfiðara," sagði Ferguson eftir leikinn.

Rio Ferdinand hefur þegar verið útilokaður frá þáttöku í leiknum gegn AC Milan í undanúrslitum Meistaradeildarinnar eftir að nárameiðsli sem hafa hrjáð hann síðustu vikur tóku sig upp í fyrri hálfleik. Ferdinand þurfti að fara af velli snemma leiks og segir Ferguson að meiðsli hans hafi riðlað skipulagi síns liðs.

"Meiðsli Kieron Richardson bættu ekki úr skák og þeirra fjarvera drap okkar leik. Við vorum ekki upp á okkar besta í síðari hálfleik, þeir skoruðu mark og fengu þannig eitthvað til að halda í. Middlesbrough gerði okkur erfitt fyrir í dag," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×