Enski boltinn

Arsenal lagði Bolton

Cesc Fabregas fagnar sigurmarki sínu gegn Bolton í dag
Cesc Fabregas fagnar sigurmarki sínu gegn Bolton í dag AFP

Leikjunum sex í ensku úrvalsdeildinni er lokið. Arsenal vann mikilvægan 2-1 heimasigur á Bolton og Sheffield United vann dýrmætan 3-0 sigur á West Ham í botnbaráttunni. Manchester City og Liverpool skildu jöfn 0-0 og Reading lagði Fulham 1-0 í Íslendingaslagnum.

Cesc Fabregas skoraði sitt fyrsta deildarmark í 11 mánuði fyrir Arsenal þegar hann skoraði sigurmark liðsins gegn Bolton. Þetta var fyrsti sigur liðsins í fimm leikjum. Nicolas Anelka kom gestunum yfir í leiknum en Tomas Rosicky jafnaði fyrir Arsenal, sem náði að halda fengnum hlut þrátt fyrir góðan endasprett frá Bolton - sem lék með 10 menn undir lokin eftir að Ivan Campo var vikið af leikvelli. Bolton hefur ekki unnið Arsenal á útivelli í 45 ár og minnkuðu vonir liðsins um að ná í fjórða sætið til muna með tapinu.

Reading á enn möguleika á að komast í Evrópukeppnina eftir sigur á Fulham í dag. Ívar Ingimarsson var á sínum stað í byrjunarliði Reading, en þar var Brynjar Björn Gunnarsson einnig í byrjunarliði og átti tvö af hættulegustu færum Reading. Heiðar Helguson byrjaði einnig hjá Fulham og skoraði mark sem dæmt var af.  

Portsmouth lagði Newcastle 2-1 þar sem heimamenn voru miklu betri aðilinn og Aston Villa skellti Middlesbrough 3-1 á útivelli eftir að hafa lent undir 1-0 í leiknum. Sigur Villa þýðir að liðið slapp endanlega við falldrauginn. Leikur Manchester City og Liverpool var ekki mikið fyrir augað, en segja má að bæði lið hafi orðið af mikilvægum stigum í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×