Lífið

Allt á suðupunkti

Fimmta úrslitakvöldið í X-Factor fer fram í beinni útsendingu frá Vetrargarðinum í Smáralind á morgun föstudag. Átta atriði eru eftir og óhætt er að fullyrða að allt sé á suðupunkti eftir tíðindi síðustu viku.

Þá varð Einar Bárðarson fyrir mikilli blóðtöku þegar Siggi kafteinn, eins og norðlenski söngvarinn Sigurður Ingimarsson er jafnan kallaður, féll úr keppni, flestum að óvörum.

Engum kom það þó meira að óvörum en Einari, sem margsinnis hefur lýst yfir að hann telji Sigga nú þegar vera búinn skipa sér í röð með bestu söngvurum landsins. En þegar Siggi hafnaði í öðru af tveimur neðstu sætunum í símakosningunni varð framtíð hans í keppninni skyndilega ógnað. Og svo fór eins og Einar hafði óttast, Ellý valdi að senda hann frekar heim, heldur en Gís-hóp Palla.

Einar vandaði meðdómurum sínum ekki kveðjuna, bæði í þættinum og í dómarablogginu sem er að finna á X-Factorsíðinni og á minnsirkus.is. Þar gagnrýndi hann harðlega ákvörðun Ellýjar og hefur því meira að segja gert skóna að það hafi verið samantekið ráð hjá þeim Ellý og Palla að senda einhvern af keppendum hans heim - til að gera jafnara í "liðum" - og því hafi brotthvarf Sigga ekkert haft með hæfileika hans að gera, heldur miklu frekar innbyrðis samkeppni milli dómaranna. Þessu eiga Palli og Ellý eflaust eftir að svara fullum hálsi í þættinum annað kvöld, þar sem búast má við föstum skotum í allar áttir.

Annað sem bar til tíðinda í vikunni var að Inga Sæland varð fyrir alvarlegu slysi á laugardaginn var þegar hún missti framan af fingri, þegar tökur fyrir þáttinn stóðu yfir. Inga er öll að braggast og mun að sjálfsögðu mæta til leiks á morgun, staðráðin í að halda áfram þátttöku allt til enda, þrátt fyrir skakkaföllin.

Eitt atriði fellur úr keppni í hverjum þætti, allt þar til yfir líkur að eitt stendur eftir sem sigurvegari keppninnar; sá flytjandi sem talinn hefur x-faktorinn eftirsótta.

Það sem keppendur þurfa að gera er að syngja sig inn í hjörtu þjóðarinnar, því það er á valdi sjónvarpsáhorfenda að velja þá sem best stóðu sig, með því að greiða þeim atkvæði í símakosningu. Þeir tveir keppendur sem fæst atkvæði fá í símakosningunni þurfa svo að syngja aftur í þættinum til að bjarga lífi sínu og sannfæra dómarana um að þeir eigi skilið að halda áfram. Það kemur því í hlut dómaranna að skera úr um að endanum hver fer heim hverju sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.