Innlent

Ekki fyllilega sáttur við áttunda sætið

Alfreð ræðir við Birki Ívar Guðmundsson markvörð í leiknum í dag.
Alfreð ræðir við Birki Ívar Guðmundsson markvörð í leiknum í dag. MYND/Pjetur
Alfreð Gíslason, þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik, segist ekki alfarið ósáttur við að ná 8. sætinu á HM í handbolta eftir 36-40 tap í leiknum um sjöunda sætið við Spánverja og segir leikinn við Dani hafa ráðið gríðarlega miklu um niðurstöðuna. Hann segir skort á breidd hafa verið helstu hindrunina fyrir íslenska liðið á mótinu.

„Þetta var mjög erfiður leikur fyrir okkur. Við vorum að fara illa með fullt af dauðafærum, okkur skorti þolinmæði í sóknarleiknum og réðum illa við línumanninn þeirra. Í fyrri hálfleik vantaði miklu meiri ógnun á vinstri vængnum en Birkir var þó að verja nokkuð vel í markinu.

Í síðari hálfleik kom það illa við okkur að missa Sverre meiddan af velli og við það riðlaðist varnarleikurinn hjá okkur. Menn eru auðvitað allir orðnir þreyttir og Fúsi var alveg búinn á því. Við erum að keyra þessa leiki alla meira og minna á sama mannskapnum. Þeir Óli, Snorri, Alex og Guðjón Valur eru búnir að spila hverja einustu mínútu í þessum leik og það er mjög erfitt - ekki nógu mikil breidd til að klára svona keppni," sagði Alfreð í samtali við Geir Magnússon á Rúv.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×